top of page

Njarðvíkurskóli

Njarðvíkurskóli er í Ytri Njarðvík í Reykjanesbæ. Skólinn er heildstæður grunnskóli með 377 nemendur í 1. - 10. bekk og 63 starfsmönnum. 

Sérstaða skólans: Umhverfisvænn grunnskóli sem leggur áherslu á lestrarnám upp allan grunnskólann.

 

Skólinn hefur undir sinni stjórn tvær sérdeildir sem þjóna öllum Suðurnesjum nema Grindavík. Önnur deildin, Ösp, er ætluð þroskaskertum og fötluðum nemendum og starfa þar þroskaþjálfi, iðjuþjálfi, kennarar ásamt stuðningsfulltrúum. Hin deildin, Björk, er ætluð nemendum með hegðunarerfiðleika sem yfirleitt eru tímabundið í deildinni. Í Björkinni starfa 3 kennarar og stuðningsfulltrúi. Deildirnar eru í tveimur húsum á lóð skólans. Tónlistarskóli bæjarins hefur aðstöðu til kennslu í skólanum og frístundaskóli, fyrir nemendur 1.-4. bekkjar, er rekinn í skólahúsnæðinu að loknum hefðbundnum skóladegi. Íþróttamiðstöð er í næsta húsi þar sem öll íþróttakennsla fer fram.

 

Skólinn var stofnaður 1942 og var skólahúsið tekið í notkun í febrúar 1943. Þá hefur oft verið byggt við húsið síðan eða fimm sinnum. Sumarið 1999 var húsið allt endurbætt að innan og er aðstaðan til fyrirmyndar. Skólinn á fjölbreytt úrval kennslugagna.


Ásgerður Þorgeirsdóttir er skólastjóri frá skólaárinu 2012 og Guðný Björg Karlsdóttir er aðstoðarskólastjóri, einnig frá skólaárinu 2012. Í skólanum eru tveir deildarstjórar, deildarstjóri yngri deildar, 1.-6. bekkjar er Helena Rafnsdóttir og deildarstjóri eldri deildar, 7.-10. bekkjar er Rafn Markús Vilbergsson. Námsráðgjafi í 80% stöðu starfar við skólann.


Skólinn þjónar fjórum hverfum: Höfnum, Grænási, Ytri Njarðvík og nemendum á eldra stigi á Ásbrú. Allir þessir staðir tilheyra Reykjanesbæ sem varð til við sameiningu þessara byggðarlaga ásamt Keflavík árið 1994. Í bænum eru um 14.300 íbúar en í skólahverfi Njarðvíkurskóla búa u.þ.b. 2500 íbúar.

bottom of page